Garðar Guðmundsson áhugamaður um knattspyrnu kallaði saman nokkra drengi á Seltjarnarnesi árið 1966 og hóf skipulagðar æfingar sem marka upphaf Íþróttafélagsins Gróttu.

Garðar var allt í öllu. Ásamt stjórnarstörfum, sem gjaldkeri, ritari og formaður, þjálfaði hann alla strákana af Seltjarnarnesinu á grasflöt við hliðina á húsinu sínu, en þeir voru rúmlega 120. Skortur á aðstöðu og nábýli við KR komu niður á uppbygginarstarfinu og meistarflokkur Gróttu átti erfitt uppdráttar.

Árið 1985 tók Stefán Ágústsson við formennsku og var honum ætlað að binda endi á erfileikatímabil sem hafði verið í gangi.

Tveimur árum síðar urðu kynslóðaskipti í knattspyrnudeildinni. Stefán lét af formennsku og við tók stjórn sem Sigurlaug Bjarnadóttir, Steinn Jónsson og Guðmundur Hannesson sátu í. Eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar var að ráða Lárus Grétarsson sem þjálfara. Lárus tók við yngri flokkum félagsins og tóku hjólin þá að snúast. Lið Gróttu tóku að sigra leiki og mót og með því jókst ásókn í knattspyrnuna, bæði meðal iðkenda og foreldra.

Árið 1990 náðist svo ákveðinn hápunktur í þessari þróun þegar 5. flokkur náði fimmta sæti í Íslandsmótinu. Að sjálfsögðu tóku forráðamenn annarra félaga eftir slíkum árangri og fór svo að lokum að Lárus fór frá félaginu.

Við stafi Lárusar tók Júlíus Júlíusson, sem án efa hefur verið einn ástsælasti unglingaþjálfarinn í sögu félagsins, en Júlíus hefur alið upp heila kynslóð knattspyrnumanna undir merkjum Gróttu.

Árið 1990 lét Guðmundur Hannesson af störfum sem formaður og stað hans tók Steinn Jónsson, en Sigurlaug hélt áfram sem gjaldkeri. Við tók blómaskeið, en á árunum 1990-1992 fór liðið upp úr 4. deild og náði 3. sæti í þriðju deildinni.

Árið 1996 urðu mikil vonbrigði þegar Grótta féll aftur niður í 4. deild. Við það grisjaðist mikið úr meistaraflokki og lagðist hann af um skeið. Árið 2000 fengu Haraldur Eyvinds og Magnús Örn Guðmundsson leyfi hjá Gróttu til að skrá aftur lið til keppni undir merkjum Gróttu og sjá jafnframt um rekstur flokksins. Haraldur er sonur Sigurlaugar sem áður var í stjórninni og Magnús er sonur Guðmundar fyrrverandi formanns knattspyrnudeildarinnar. Júlíus Júlíusson var fenginn til að þjálfa hópinn og hóað var í hóp Gróttustráka sem allir voru á meistaraflokksaldri. Við tóku 4 ár þar sem Grótta komst alltaf í úrslitakeppnina í 4. deild, en náði því miður aldrei þeim árangri að komast upp í 3. deildina.

Að fjórum árum liðnum meistaraflokkurinn aftur orðinn hluti af rekstri knattspyrnudeildar. Þá var Ásmundur Haraldsson ráðinn spilandi þjálfari liðsins og við tóku nýtt blómaskeið. Grótta hefur síðan komist tvisvar í 1. deild og spilar þar þegar þetta er ritað.

Unglinga- og barnastarf hefur verið með besta móti. Mikil áhersla er lögð á gott uppbygginarstarf í yngri flokkum og hátt menntunarstig þjálfara. Grótta unnið titla á mótum um allt land og kvennafótboltinn er í örum vexti. Aðstaðan hefur batnað og öll umgjörð í kringum knattspyrnudeildina er til fyrirmyndar.

Núverandi stjórn hefur setið lengi og unnið mjög gott starf.