Nýir erlendir þjálfarar

Fimleikadeild Gróttu hefur ráðið fimm erlenda þjálfara til starfa. Þjálfararnir eru frábær viðbót við öfluga liðsheild hjá félaginu og hafa náð að aðlagast hratt og vel að starfinu og iðkendum.

Elsa Garcia er 33 ára og kemur frá Mexíkó. Hún er fyrrum landsliðskona Mexíkó í áhaldafimleikum, var í landsliði Mexíkó frá 2000 til 2023 og á ferli sínum keppti hún bæði á Ólympíuleikum og á nokkrum heimsmeistaramótum. Elsa hefur unnið til 35 alþjóðlegra verðlauna og er ein af bestu áhaldafimleikakonum Mexíkó frá upphafi. 

Josiel er 23 ára bandaríkjamaður. Hann er bæði metnaðarfullur og áhugasamur þjálfari með yfir 6 ára reynslu. Hann hefur þjálfað alla aldurshópa, frá leikskólaaldri til keppnishópa á efri stigum. Josiel lauk tölvunarfræðinámi í vor og hefur sótt mörg þjálfaranámskeið.

Csaba er frá Ungverjalandi og hefur þjálfað fimleika í Noregi frá árinu 2016. Hann hefur reynslu af þjálfun bæði stúlkna og drengja í áhaldafimleikum, en hefur að auki verið aðstoðarþjálfari í hópfimleikum.

Gemma Mc Cormick er 22 ára og kemur frá Írlandi og hefur góða reynslu í þjálfun bæði frá Írlandi og Banaríkjunum þar sem hún hefur starfað í International Gymnastics Camp. Gemma er ein af fremstu fimleikakonum í Írlandi og á langan og farsælan feril í fimleikum þar í landi. Gemma mun þjálfa keppnishópa í áhaldafimleikum og líka grunnhópa í fimleikum.

David Dexter kemur frá Bandaríkjunum og býr yfir 8 ára reynslu í fimleikum. Hann hefur þjálfað breiðan hóp iðkenda, eða allt frá byrjendum og upp í afreksþjálfun. 

Við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin til starfa hjá Gróttu þar sem þekking þeirra, reynsla og metnaður hefur þegar haft jákvæð áhrif á bæði iðkendur og starfið í heild sinni. 

 Við hlökkum til að sjá árangurinn af starfi þeirra á komandi misserum.

Nýir yfirþjálfarar með sterkar Gróttutaugar

Það er með mikilli gleði sem við bjóðum Völu Thoroddsen, Bjarna Geir H. Halldórsson og Bergdísi Kötlu Birgisdóttur hjartanlega velkomin til starfa sem yfirþjálfarar hjá Fimleikadeild Gróttu. Bæði iðkendur, aðstandendur og starfsfólk fimleikadeildarinnar ættu að þekkja vel til þeirra enda hafa þau öll verið viðriðin deildina lengi og unnið frábært starf.

Vala Thoroddsen tók við sem yfirþjálfari grunnhópa haustið 2024. Hún hefur gegnt fjölbreyttum hlutverkum innan Gróttu síðustu ár, bæði sem þjálfari og framkvæmdastjóri deildarinnar og eins æfði hún sjálf fimleika í 11 ár. Vala er uppalin á Seltjarnarnesi og er þekkt fyrir einstaka jákvæðni og hlýju og er sannur leiðtogi í fimleikasalnum.

Bjarni Geir H. Halldórsson tók við sem yfirþjálfari áhaldafimleika haustið 2024. Hann hefur þjálfað hjá Gróttu frá því hann var fjórtán ára gamall og hefur víðtæka reynslu og þekkingu í íþróttinni bæði hjá drengja- og stúlknaliðum. Bjarni Geir hefur mikinn metnað fyrir starfinu í Gróttu og er frábær fyrirmynd og leiðtogi í fimleikasalnum.

Bergdís Katla Birgisdóttir tók við sem yfirþjálfari hópfimleika haustið 2024. Hún er öflug fimleikakona með 15 ára feril að baki, þar af sex ár í hópfimleikum, og kom reynslunni ríkari aftur til Gróttu eftir sérnám í fimleikum við Lýðháskólann Ollerup í Danmörku. Bergdís hóf þjálfun hjá Gróttu árið 2018 og hefur einbeitt sér aðallega að keppnishópum í hópfimleikum. Bergdís er frábær fyrirmynd og býr yfir einstaklega jákvæðu viðhorfi og krafti og það verður ánægjulegt að sjá hana vaxa sem áframhaldandi leiðtogi hjá félaginu.

Við hlökkum til að fylgjast með þessu öfluga teymi yfirþjálfara vaxa og dafna í öflugu starfi hjá Fimleikadeildinni.

Þjálfarafundur fimleikadeildar

Það var líf og fjör á fyrsta þjálfarafundi annarinnar hjá Fimleikadeild Gróttu þar sem um 40 þjálfarar félagsins komu saman í september. Anna Steinssen frá KVAN heillaði hópinn með bæði fræðandi og skemmtilegum fyrirlestri um jákvæð samskipti og samskipti á milli kynslóða. Axel Bragason, sjúkraþjálfari og einn reynslumesti fimleikaþjálfari deildarinnar, tók svo við keflinu og fór yfir leiðbeiningar og áherslur í þjálfun, æskilegri framkomu við iðkendur, hvernig bregðast skuli við meiðslum eða slysum í salnum, ásamt mörgu öðru. Að lokum var farið yfir og sammælst um góðar venjur sem þjálfarar Fimleikadeildarinnar munu að tileinka sér og vinna eftir. Fundurinn og fræðslan fór vel í þjálfarahópinn sem gaf starfinu  táknræna fimmu eins og sjá má á myndunum.