Hrafnhildur Thoroddsen – Minning

Hrafnhildur Thoroddsen lést fimmtudaginn 16. janúar síðastliðinn. Það er með miklum söknuði sem við kveðjum kæran og duglegan samstarfsmann og vin, sem starfaði í íþróttahúsinu frá árinu 2014.

Hrafnhildur var einstök manneskja en frá því hún hóf störf hjá okkur sinnti hún af mikilli elju störfum við símsvörun, móttöku iðkenda, foreldra og annarra gesta í móttöku Gróttu ásamt fleiri tilfallandi verkefnum. Bros hennar og hlýlegt viðmót voru einkenni hennar en hún var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd þegar þess þurfti. Þeir sem þekktu hana vita hversu mikill kraftur, jákvæðni og ákveðni bjó í henni. Hún lét alltaf til sín taka þegar hún var í húsinu og ekkert virtist geta stöðvað hana í að leggja sitt af mörkum. Henni leið vel í íþróttahúsinu, að vera á meðal fólks á öllum aldri í amstri hversdagsins, að leggja sitt að mörkum til að öll verkefni dagsins fengju farsælan og lausnarmiðaðan endi.

Við sem störfuðum með Hrafnhildi munum ávallt minnast hennar með hlýju, þakklæti og virðingu. Íþróttafélagið Grótta sendir fjölskyldu, vinum og vandamönnum hennar hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.