Kjartan Kári til Haugasund

Kjartan Kári Halldórsson og knattspyrnudeild Gróttu hafa gert samkomulag við norska úrvalsdeildarfélagið FK Haugesund um að Kjartan gangi til liðs við félagið. Haugesund endaði í 10. sæti norsku deildarinnar á liðnu tímabili en félagið hefur leikið í úrvalsdeildinni, Eliteserien, frá árinu 2010 og best náð þriðja sæti. 

Kjartan Kári, sem er 19 ára gamall, er fæddur og uppalinn Seltirningur og hefur leikið með Gróttu frá 5 ára aldri. Eftir að hafa farið í gegnum allt yngri flokka starf félagsins spilaði Kjartan sína fyrstu keppnisleiki með meistaraflokki sumarið 2020, þegar Grótta lék í úrvalsdeild, en var svo lykilleikmaður í liðinu ári síðar. Í sumar sprakk Kjartan út í Gróttuliðinu og varð markakóngur Lengjudeildarinnar með 17 mörk ásamt því að vera kosinn efnilegasti leikmaðurinn. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kjartan spilað 48 leiki í deild og bikar fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 29 mörk. Hann á einnig að baki 13 leiki fyrir yngri landslið Íslands og æfði á dögunum í fyrsta sinn með U21 árs landsliðinu. 

Grótta óskar Kjartani Kára og fjölskyldu hans innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Noregi