Hallgerður til Gróttu og Elín Helga framlengir

Hallgerður Kristjánsdóttir skrifaði undir samning við knattspyrnudeild Gróttu nú á dögunum. Hallgerður, sem er tvítug, leikur sem varnarmaður og er uppalin hjá Val. Síðustu tvö ár hefur Hallgerður spilað með Tindastól; í Lengjudeildinni árið 2020 og svo í Pepsi Max deildinni síðasta sumar. Hallgerður á einnig að baki tvo leiki með U16 ára landsliði Íslands. Hallgerður er mikill liðsstyrkur fyrir Gróttuliðið sem undirbýr sig nú af krafti fyrir baráttuna í 2. deild kvenna í sumar. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar komu Hallgerðar og býður hana velkomna í félagið!

Elín Helga Guðmundsdóttir framlengdi einnig samning sinn við Gróttu nú á dögunum en hún er uppalin í Gróttu. Elín Helga er 16 ára varnarmaður sem lék tvo leiki með Gróttu í Lengjudeildinni síðasta sumar og einn í Mjólkurbikarnum, ásamt því að spila bæði með 2. og 3. flokki kvenna þar sem hún var lykilleikmaður. Knattspyrnudeild fagnar því að Elín Helga hafi framlengt samning sinn við félagið, enda efnilegur leikmaður þar á ferð sem verður spennandi að fylgjast með á komandi tímabili.