Katrín Anna Ásmundsdóttir er íþróttakona æskunnar fyrir árið 2021 hjá Gróttu.
Úr umsögn handknattleiksdeildar um Katrínu Önnu:
Katrín Anna er leikmaður meistaraflokks kvenna og 3.flokks félagsins. Hún er fædd árið 2004 og er örvhentur hornamaður. Þrátt fyrir ungan aldur er þetta þriðja tímabil Katrínar Önnu með meistaraflokki Gróttu. Hún skoraði 51 mark í deildinni í fyrra þegar liðið komst alla leið í úrslit í umspili um sæti í Olísdeildinni en tapaði í úrslitaeinvígi við Olísdeildarlið HK. Katrín Anna hefur sýnt með sinni frammistöðu að hún er einn albesti örvhenti hornamaður deildarinnar. Á lokahófi meistaraflokks í vor var Katrín Anna valinn efnilegasti leikmaður liðsins.
Katrín Anna hefur verið fastamaður í unglingalandslið Íslands og var tvívegis valin í keppnisferðir með liðinu á árinu. Í sumar lék U17 ára landslið Íslands í Litháen á Evrópumóti B-landsliða. Þar komst liðið alla leið í úrslitaleik en tapaði honum naumlega. Katrín Anna lék stórt hlutverk með liðinu og stóð sig frábærlega. Núna í haust var hún aftur valin og nú til keppni í Serbíu þar sem liðið lék við Slóvena, Slóvaka og Serba um laust sæti á Evrópumót A-landsliða næstkomandi sumar. Því miður tapaði liðið aftur úrslitaleik og nú gegn Serbíu. Aftur lék Katrín Anna vel með liðinu.
Katrín Anna er félagsmaður mikill og tekur virkan þátt í starfi félagsins. Í sumar þjálfari Katrín Anna í Handboltaskóla Gróttu og stóð sig vel þar.
Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn.
Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.