Meistaraflokkur kvenna áfram í Mjólkurbikarnum

Grótta lék við Fram í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins í kvöld og vann öruggan 4-0 sigur. Diljá Mjöll Aronsdóttir kom Gróttukonum snemma yfir með marki úr vítaspyrnu. María Lovísa Jónasdóttir jók forystu Gróttu á 34’ mínútu og Bjargey Sigurborg Ólafsson bætti svo við þriðja markinu á 55’ mínútu. Í blálokin skoraði síðan Diljá Mjöll Aronsdóttir sitt annað mark beint úr aukaspyrnu!
Stelpurnar eru því komnar áfram í aðra umferð Mjólkurbikarsins og spila við Aftureldingu eða Hauka sunnudaginn 16. maí.

Hákon fer til Svíþjóðar í sumar

Knattspyrnudeild Gróttu hefur náð samkomulagi við IF Elfsborg um að Hákon Rafn Valdimarsson markvörður gangi til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið í félagaskiptaglugganum í sumar, að uppfylltum nánari skilmálum samningsins.

Hákon er 19 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið aðalmarkvörður Gróttu undanfarin þrjú tímabil. Hákon spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu árið 2017 en hann á að baki 61 leik fyrir félagið og hefur leikið í þremur efstu deildum með liðinu. Auk þess hefur Hákon leikið með U-19 ára landsliðinu sem og U-18 ára og var einnig í lokahópi U21-árs landsliðsins sem tók þátt á EM í mars síðastliðnum.

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með samninginn og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Svíþjóð á komandi misserum.