Skip to content

Maggi og Pétur áfram með meistaraflokk kvenna

Í gærkvöldi skrifuðu þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson undir samning sem þjálfarar meistaraflokks kvenna út næsta ár. Eins og kunnugt er tók Magnús við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Þeir munu á komandi tímabili stýra liðinu í sameiningu en Grótta er á leið í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa endað í 6. sæti í sumar.

„Ég er hrikalega spenntur að halda áfram að vinna með þessum efnilega hópi. Maður er sjálfur í yngri kantinum og því frábært að fá tækifæri til að vera aðalþjálfari í meistaraflokki á þessum tímapunkti. Við Maggi höfum unnið vel saman og munum gera það áfram“ segir Pétur sem varð 27 ára nú í haust.

Magnús tók í sama streng:„Það er stór áskorun fyrir okkur að vinna vel úr reynslunni sem við fengum síðasta sumar. Tækifærin sem Gróttuliðið hefur eru mikil og ég hlakka mikið til að byrja æfingar á ný. Pétur hefur sýnt síðustu ár hve öflugur þjálfari hann er og ég trúi því að hann muni eflast enn frekar með stærra hlutverki.“

Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar skrifaði undir með strákunum í gær. Hann segir að markmið síðustu tveggja ára hafi náðst í sumar og nú sé horft fram á nýja og spennandi tíma. „Við erum á áætlun. Stelpurnar sýndu það í sumar að þær eiga fullt erindi í 1. deild og nú tekur við áskorun um að festa sig enn frekar í sessi sem alvöru lið í deildinni. Við í stjórninni erum spennt fyrir því að halda áfram þróun þessa flotta liðs með þá Magga og Pétur við stjórnvöllinn.“

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print