Forskráning í fimleikadeild Gróttu veturinn 2021-2022 er hafin

Þann 1. júní til 30. júní næstkomandi fer fram forskráning í fimleikadeild Gróttu fyrir veturinn 2021-2022, https://www.sportabler.com/shop/grotta

Greitt er 10.000 kr skráningargjald með kreditkorti við skráningu. Skráningargjaldið er óafturkræft en dregst frá æfingagjöldum næsta vetrar. Komi upp sú staða að fimleikadeildin þurfi að neita umsækjendum um pláss er möguleiki á að óska eftir að fá skráningargjaldið endurgreitt.

Athugið að biðlistinn fellur nú úr gildi og allir sem vilja komast að næsta vetur þurfa að forskrá sig.
Eftir að forskráningu líkur verður hægt að skrá á biðlista.

Lokaleikur Gróttu í Olísdeildinni – frítt inn

Lokaleikur meistaraflokks karla í Olísdeildinni í vetur fer fram á morgun, fimmtudag kl. 19:30. Frítt verður á leikinn í boði Hertz. Andstæðingarnir eru ríkjandi Íslandsmeistarar, Selfoss.

Strákarnir okkar hafa sýnt frábæra frammistöðu í vetur í Olísdeildinni og eiga skilið góðan stuðning í lokaleik vetrarins. Ljóst er að liðið mun enda í 10.sæti deildarinnar sem þýðir að liðið leikur áfram í Olísdeildinni næsta vetur, eitthvað sem fáar spár bjuggust við þegar mótið fór af stað. Þjálfarateymið Arnar Daði Arnarsson og Maksim Akbachev hafa unnið gríðarleg afrek að koma Gróttu aftur á stall með bestu liðum landsins. Leikmennirnir hafa lagt á sig gríðarmikla vinnu á sig á þessum skrítna vetri.

Mætum öll og styðjum strákana.

🤾 Grótta – Selfoss
🕕 kl. 19:30
🏟 Hertz-höllin

Áfram Grótta !

Aðalfundir Gróttu 2020

Aðalfundir deilda og ráða Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram fimmtudaginn 29. apríl síðastliðinn og að þessu sinni voru fundirnir rafrænir vegna Covid ástandsins. Sigrún Edda Jónsdóttir hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Braga Björnssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn deilda og ráða í pontu og fóru yfir starfið á árinu 2020. Því næst var farið yfir rekstrarniðurstöður ársins en reksturinn gekk afar vel á árinu og hefur rekstur félagsins almennt verið í góðu jafnvægi á árinu 2020.
Fjalar Sigurðsson hélt utan um tæknistjórnina og sá til þess að rafræni fundurinn gekk án áfalla. Gefin var út glæsileg árskýrsla fyrir síðasta ár: https://issuu.com/niels…/docs/_rssk_rsla_gr_dttu2020_ok_web

Eldri ársreikninga er að finna hér.

Andri snýr aftur heim

Handknattleiksdeild Gróttu hefur ráðið Andra Sigfússon sem verkefnastjóra deildarinnar auk þess sem Andri tekur að sér þjálfun yngri flokka hjá Gróttu.

Andra þarf vart að kynna fyrir Gróttufólki. Hann er uppalinn hjá félaginu og lék upp alla yngri flokka með Gróttu auk þess sem hann lék með meistaraflokki til ársins 2009. Hann er íþróttafræðingur að mennt og hefur starfað sem þjálfari hjá deildinni frá árinu 2002. Undanfarin ár hefur Andri verið yfirþjálfari hjá Fjölni. Andri er silfurmerkjahafi Gróttu og var íþróttastjóri félagsins árin 2008 til 2012 .

Andri mun taka að sér þjálfun 6. flokks karla og 4. flokks karla.

Það ríkir mikil ánægja innan handknattleiksdeildar Gróttu að fá Andra aftur heim.

Velkominn Andri!

Þjálfarafræðsla um samskipti við foreldra

Grótta hélt námskeið fyrir þjálfara félagsins 23. mars síðastliðinn um samskipti við foreldra. 
Sálfræðingurinn Hrund Þrándardóttir hélt námskeiðið sem tókst afar vel, það var góð mæting hjá þjálfurum sem gerðu góðan róm af námskeiðinu. 
Samvinna þjálfara og foreldra hefur mikilvæg áhrif m.a. á mætingu barna, þátttöku, líðan og  þrautseigju. Í fræðslunni var áhersla lögð á hvað þjálfarar geta gert til að byggja upp góð samskipti og gagnlega samvinnu við foreldra og hvernig hægt er að bregðast við erfiðum aðstæðum.  Áhersla var á virkni þjálfara á meðan fræðslu stendur til að þeir geti mátað efnið í sína vinnu og nýtt það eins og hægt er. 

Íþróttaæfingar hefjast að nýju

Þau gleðitíðindi bárust í gær að boðaðar voru rýmri samkomutakmarkanir. Nýjar reglur taka gildi á miðnætti í kvöld. Þetta þýðir að íþróttaæfingar mega hefjast án takmarkana og íþróttakeppni er leyfð með 100 áhorfendum.

Allar æfingar hefjast samkvæmt tímatöflum á morgun fimmtudaginn 15. apríl. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að fylgjast vel með á Sportabler.

Áfram biðjum við iðkendur, þjálfara og aðra þá sem erindi kunna að eiga í íþróttamannvirkin okkar að mæta ekki finni þeir fyrir minnstu einkennum veikinda.

Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að koma ekki inn í íþróttamannvirkin.

Við hlökkum til að taka á móti iðkendum okkar aftur á morgun.

14 leikmenn Gróttu boðaðir á landsliðsæfingar á dögunum

Níu drengir voru boðaðir á landsliðsæfingar hjá fjórum landsliðum og fimm stúlkur hjá tveimur landsliðum. Ólafur Brim Stefánsson leikmaður meistaraflokks karla var valinn í æfingahóp hjá U-21 landsliðshópnum en þær æfingar féllu niður sökum þess að verkefni U-21 árs landsliðsins sem framundan var í sumar hefur verið aflýst sökum heimsfaraldurs. Ari Pétur Eiríksson leikmaður 3.flokks og meistaraflokks æfði með U-19 ára landsliðinu. Þrír leikmenn æfðu með U-17 ára liðinu, þeir Birgir Örn Arnarsson, Gabríel Örtenblad Bergmann og Hilmir Örn Nielsen en tveir síðar nefndu eru leikmenn í 4.flokki. Alex Kári Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano, Hannes Pétur Hauksson og Hrafn Ingi Jóhannson æfðu með U-15 ára landsliðinu allir eru þeir á yngri ári í 4.flokki.

Um komandi helgi munu þær, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Katrín Helga Sigurbergsdóttir og Patricia Dúa Thompson æfa með U-21 landsliðinu og á meðan munu þær Katrín Anna Ásmundsdóttir og Joanna Marianova Siarova æfa með U-17 ára landsliðinu. Allar eru þær í meistaraflokki Gróttu auk þess að leika með yngri flokkum félagsins.

Kjör íþróttamanns og íþróttakonu Gróttu

Afhending verðlauna fyrir íþróttafólk Gróttu fyrir árið 2020 fór fram með öðru sniði í ár. Við tókum saman myndband þar sem er að finna samantekt á afhendingu verðlauna, myndum af merkjahöfum og kynningar frá Braga Björnssyni formanni Gróttu.

Magnus teiknaði jólakort Gróttu 2020

Jólakortsamkeppni Gróttu var haldin í annað skipti nú fyrir jólin. Við efndum til teiknisamkeppni í 4. bekk Mýrarhúsaskóla um að velja teikningu sem myndi príða jólakortið í ár.

Magnus Holm-Andersen átti teikninguna sem varð hlutskörpust og hún prýðir jólakort félagsins árið 2020. Auk þess voru veitt verðlaun fyrir 3 aðrar teikningar.

Við viljum þakka skólastjórnendum í Mýrarhúsaskóla fyrir samstarfið í ár og þessi viðburður er orðinn hefð hjá félaginu.