Á dögunum var undirritaður nýr styrktarsamningur Seltjarnarnesbæjar við Íþróttafélagið Gróttu en hann gildir til loka árs 2019. Með nýjum samningi hækka fjárframlög til Gróttu um rúmar 15 milljónir. Meginmarkmið samningsins er að tryggja öflugt og fjölbreytt íþróttastarf á Seltjarnarnesi.
Við undirritunina þakkaði Elín Smáradóttir, formaður aðalstjórnar Gróttu bæjaryfirvöldum fyrir stuðninginn og lagði áherslu á að með auknum fjárframlögum væri hægt að gera gott starf enn betra. „Mig langar fyrir hönd Gróttufólks að þakka Seltjarnarnesbæ fyrir þeirra framlag til Íþróttafélagsins. Sérstaklega langar mig að þakka auknar fjárveitingar til meistaraflokks kvenna í knattspyrnu. Það er ljóst að með hækkun fjárframlags til Gróttu þá getum við gert enn betur,“ sagði Elín að lokinni undirritun.