Íþróttafélagið Grótta fagnar í dag 55 ára afmæli sínu. Félagið var stofnað þennan dag, 24. apríl árið 1967. Í gegnum tíðina hafa ýmsar greinar verið stundaðar innan félagsins svo sem körfuknattleikur, kraftlyftingar, skák og skíði. Í dag starfar Grótta í þremur deildum, fimleika-, handknattleiks- og knattspyrnudeild. Gróttunafnið hefur beina og ótvíræða tilvitnun til Seltjarnarness. Það kemur til vegna vestasta hluta Seltjarnarnessins sem heitir Grótta. Þar er viti og er félagið nefnt eftir þeim vita.
Á undanförnum árum hefur starf félagsins eflst til muna. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt og starfsemin vaxið samhliða því. Áhersla Gróttu verður áfram sett á að hlúa vel að iðkendum sínum og félagsfólki öllu á komandi árum.
Í tilefni afmælisins efnum við til skemmtilegs leiks á Facebook síðu Gróttu. Nefnið í komment við þessa frétt einn af þeim fjórum aðilum sem sátu í fyrstu stjórn Gróttu í kjölfar stofnfundar félagsins sem fram fór í samkomusal Mýrarhúsaskóla 24. apríl 1967. Dregið verður úr réttum svörum og mun hinn heppni fá gjafapoka með glæsilegum Gróttuvarningi að gjöf. Nánar hér.