Skip to content

Endurbætt íþróttamiðstöð og nýtt fimleikahús opnað

Það var svo sannarlega margt um manninn í opnunarathöfn á stærri og endurbættri íþróttamiðstöð Seltjarnarness, í gær laugardaginn 14. september. Formleg dagskrá fór fram í fimleikasalnum þar sem að hápunkturinn var glæsileg sýning fimleikabarna í Gróttu á öllum aldri undir stjórn Berglindar Pétursdóttur og fleiri þjálfara. Fimleikasýningin sýndi svo ekki var um villst hvað þetta nýja, glæsilega og fullkomna fimleikahús hefur upp á að bjóða fyrir iðkendur.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, Dagur B. Eggertson borgarstjóri og Guðjón Rúnarsson formaður fimleikadeildar Gróttu héldu ávörp í tilefni tímamótanna en um er að ræða samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar. Lárus B. Lárusson stjórnarmaður í UMSK færði Seltjarnarnesbæ blómvönd og hamingjuóskir Ungmennasambands Kjalarnesþings.

Athöfninni í fimleikasalnum lauk með flottu hoppi og sterku klappi allra í salnum þar sem að bæjarstjóri og borgarstjóri létu sitt ekki eftir liggja. Í framhaldi bauðst gestum að skoða endurbætta íþróttamiðstöðina í heild sinni, njóta veitinga og spjalla saman enda langþráður draumur orðinn að veruleika.

Stiklað á stóru:

Í árslok 2016 undirrituðu þau Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri samstarfssamning á milli Seltjarnanesbæjar og Reykjavíkurborgar um að standa sameiginlega að stækkun íþróttaaðstöðu Gróttu til að bæta aðstöðu til fimleikaiðkunar. Upp­haf viðræðna sveit­ar­fé­lag­anna nær til samþykkt­ar á fundi sam­bands sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu árið 2010, en þá stefndu sveit­ar­stjór­arn­ir á aukið sam­starf í íþrótta­mál­um á höfuðborg­ar­svæðinu.

Samstarfssamningurinn Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar fól í sér að sveitarfélögin tvö myndu standa sameiginlega að rekstri fimleikadeildar Gróttu og mun Reykjavíkurborg greiða leigu á fimleikaaðstöðunni fyrir iðkendur sem búsettir eru í Reykjavík. Leigusamningurinn er til 20 ára með ákvæði um framlengingu á 5 ára fresti.

Þann 25. mars 2018 tóku svo borgar- og bæjarstjóri fyrstu skóflustunguna að stærri og endurbættri íþróttamiðstöð Seltjarnarness að viðstöddum fjölda ungra íþróttaiðkenda. Nú tæpum 18 mánuðum síðar iðar nýtt og endurbætt hús af lífi. Iðkendur hafa aldrei verið fleiri hjá Íþróttafélaginu Gróttu eða um 1200. Þess má geta að þar af er fjöldi iðkenda í fimleikadeildinni um 575 manns þar sem 65% þátttakendanna er frá Reykjavík.

Framkvæmdin á íþróttamannvirkinu var afar umfangsmikil því auk nýrrar viðbyggingar fyrir stórbætta aðstöðu fimleikadeildarinnar sem hefur nú fengið 1300 fermetra undir starfsemi sína ákvað Seltjarnarnesbær að ráðast samhliða í endurbætur á íþróttamiðstöðinni sjálfri. Stóri íþróttasalur hússins var færður til vesturs, öll búningsaðstaða bætt til muna og 170 fermetra styrktarsalur var útbúinn fyrir félagsmenn. Gerð var breyting á aðkomu í íþróttamiðstöðina, anddyrið stækkað sem og afgreiðslan og aðstaða starfsmanna. Það var Munck ehf. á Íslandi sem annaðist framkvæmdirnar á húsnæðinu en Þjónustumiðstöð Seltjarnarnesbæjar annaðist breytingar á lóðinni og aðkomu að íþróttamiðstöðinni. Eftirlit með verkinu sá Strendingur ehf um.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar