Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, hefur gert lánssamning við ítalska liðið Apulia Trani sem leikur í Serie C. Tinna er komin út og gæti leikið sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn í borginni Palermo á Sikiley. Eins og kunnugt er gekk Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir til liðs við Apulia Trani í síðustu viku en báðar framlengdu samninga sína við Gróttu á dögunum.
Tinna er uppalin í Gróttu og hefur leikið 75 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 35 mörk. Hún hefur verið lykilleikmaður frá því að meistaraflokkur var settur á laggirnar árið 2016 og er leikjahæsta Gróttukonan ásamt Diljá Mjöll Aronsdóttur.
Við heyrðum hljóðið í Tinnu sem kom til Trani í gærkvöld eftir langt ferðalag.
„Þetta á sér ekki langan aðdraganda. Félagið hafði samband við mig fljótlega eftir að Sigrún var komin út og eftir að hafa talað við hana og hugsað málið aðeins ákvað ég að slá til. Það er frábært tækifæri að búa í nýju landi og æfa fótbolta við aðrar aðstæður. Það var til dæmis mjög notalegt að vakna í sól og blíðu í morgun! En ég vona aðallega að þetta verði reynsla sem muni nýtast mér í framtíðinni, bæði inni á vellinum með Gróttu og annars staðar í lífinu“
Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Þar segir meðal annars: „Við erum sannfærð um að eiginleikar Tinnu sem framherja muni efla sóknarleik liðsins og hjálpa til við að ná settum markmiðum. Við bjóðum Tinnu hjartanlega velkomna til Trani“ 🇮🇹
Heimaæfingar Þórs styrktarþjálfara
Þór Sigurðsson, styrktarþjálfari Gróttu, ýtir úr vör heimaæfingamyndböndum í þessari þriðju bylgju Covid. Æfingarnar eru ætlaðar fyrir alla aldurshópa og er tilvalið fyrir foreldra að gera með börnum sínum.
Halda áfram að lesa